Ef allir eiga kökuna, hvað má ég þá fá mikið? 

Við heyrum mikið talað um sjálfbærni þessa dagana. Þetta orð hefur markað sér leið inn í okkar daglega mál með öruggum hætti og má nú heyra talað um sjálfbærni þetta og sjálfbærni hitt. Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við að orð skjóti upp kollinum og verði nokkurskonar tískuorð í málinu þar sem þeim virðist spyrnt saman við nánast hvað sem er og oft á tíðum í markaðslegum tilgangi. En ætli orðið sjálfbærni sé slíkt orð, og hvað þýðir það?

Sjálfbærni er í einfölduðu máli getan til að nýta þær auðlindir náttúrunnar sem eru til án þess að ganga á þær með þeim afleiðingum að við skerðum lífsgæði komandi kynslóða. Þannig ættu ákvarðanir okkar í dag að vera teknar með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Við megum nota það sem er til, við megum bara ekki nota allt heldur skilja líka eftir fyrir hina. Við kunnum þetta alveg. Flestir vita til dæmis að ef þeir koma í heimsókn til einhvers þar sem verið er að bjóða uppá köku þá væri það ekki vel liðið ef einhver myndi taka alla kökuna í heilu lagi ásamt gaffli og byrja að gúffa í sig einn síns liðs. En af hverju vitum við að það er ekki í lagi? Í þessari stöðu er a.m.k. tvennt sem er augljóst, eignarhaldið og samfélagslegar reglur. Eignarhaldið á kökunni er nokkuð skýrt, það var einhver annar sem átti kökuna og við viljum lifa eftir þeim samfélagsreglum að allir séu jafnir og hafi jafnan aðgang að auðlindum – kökunni í þessu tilviki.

En hvað gerist ef eignarhaldið er ekki skýrt og notendahópurinn er óljós? Hugtakið þjóðareign sem t.d. nær yfir náttúruauðlindir fellur í þennan flokk. Þar er eignarhaldið ekki óljóst, það er sannarlega þjóðin sem er eigandinn en hins vegar er notendahópurinn óljós. Ef allir eiga kökuna en enginn sérstakur er viðstaddur þegar þú ætlar að fá þér af henni, hvað mátt þú taka mikið? Hér verður þú að ímynda þér væntanlega neytendur kökunnar og áætla hvað sé hæfileg stærð fyrir þig þannig að þú takmarkir ekki möguleika annarra til að fá líka. Þetta mat er huglægt og því væntanlega breytilegt á milli fólks.

Svo vitum við að við erum ólík eins mörg og við erum og höfum ólíkar skoðanir. Sumum mun þykja kakan girnileg og munu vilja fá sér af henni. Öðrum mun ekki finnast hún góð og ekki vilja hana. Einhverjir af þeim munu samt verða súrir yfir að fá ekki köku við hæfi og munu vilja eitthvað annað í staðin.

Þeim mun þá kannski finnast í lagi að taka sér sneið til að selja einhverjum öðrum sem vill fá meira af kökunni. Enn öðrum mun finnast í lagi að taka sér sneið sem einhver annar vildi ekki. Og svo munu verða þeir sem finnst óþarfi að geyma fyrir þá sem koma seint af því að „þeir bara missa af“. En hvað ef þeir bara missa af af því að þeir eru ekki einu sinni fæddir? Munu þeir aldrei fá tækifærið til að upplifa það að borða köku bara fyrir það eitt að hafa ekki fæðst á réttum kökutíma?

Náttúruauðlindakakan er okkar allra og á að lifa okkur sem nú stöndum. Hún á að vera í boði fyrir börn okkar, barnabörn og barnabarnabörn. Allir eiga að hafa jöfn tækifæri til að nýta og njóta og það er í okkar verkahring að finna leið til að skipta jafnt, vera nægjusöm og njóta saman. Um það snýst sjálfbærni, að hver og einn taki ákvarðanir um eigin neyslu með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

 

Náttúruauðlindakakan er okkar allra og á að lifa okkur sem nú stöndum. Hún á að vera í boði fyrir börn okkar, barnabörn og barnabarnabörn. Allir eiga að hafa jöfn tækifæri til að nýta og njóta og það er í okkar verkahring að finna leið til að skipta jafnt, vera nægjusöm og njóta saman. Um það snýst sjálfbærni, að hver og einn taki ákvarðanir um eigin neyslu með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Heim

Um

Samstarfsskólar

Bloggið

Heimaræktun

Heimaverkefni

Fróðleikur

Myndir

Vertu með

“Til allrar menningar þarf ræktun, og til allrar ræktunar þarf tíma. Þess vegna er í rauninni ekki til ný menning. Öll menning er gömul.” - Þórarinn Björnsson

Sími og netfang

Gunnar Ólafsson
Sími 888 5579
frae@djupid.net

This message is only visible to admins.

Problem displaying Facebook posts.
Click to show error

Error: Server configuration issue